top of page
IMG_0455.jpg

Tryggvi Gunnarsson

Framboð: 3.-5. sæti

Fæðingarár: 1963

Búseta: Seyðisfirði

Ég heiti Tryggvi Gunnarsson, oftast kenndur við Flatey í Breiðafirði, og stefni á 3ja sætið á lista Framsóknarflokksins í NV kjördæmi fyrir næstu alþingiskosningar. Ég er 57 ára skipstjóri með margskonar reynslu úr atvinnulífinu – sjómennsku, ferðaþjónustu, kvikmyndagerð, byggingarvinnu og sveitastörf. Ég hef glímt við hjartasjúkdóm frá 36 ára aldri og hefur sú reynsla verið lærdómsrík og veitt mér innsýn í kjör og stöðu öryrkja.

Hér á eftir eru mínar helstu áherslur:
Fólk á að geta dregið fram lífið á sómasamlegan hátt á lægstu launum og bótum. Þetta er skýlaus KRAFA.
Samgöngur eru lykilinn að blómlegri byggð á Íslandi, þetta vitum við ÖLL. Tryggja þarf búsetu, heilbrigðisþjónustu, menntun, frelsi og almenn lífskjör. Ef þetta væri í lagi hef ég ekki áhyggjur af landinu eða fólkinu sem það vill byggja.
Náttúruvernd, nú í ljósi alvarlegra aðstæðna. Setjum náttúru Íslands og alls heimsins undir sama hatt með skýru almennu regluverki og verndun. Ég hef þó engan áhuga á að opna leyfisbréf í hvert skipti sem ég þarf að fara undir ÆÐARKOLLU.
Ný stjórnarskrá? Upp úr skotgröfunum, finnum sameiginlegan grundvöll, tökum afstöðu og klárum SAMTALIÐ.
Evrópusambandið? Upp úr skotgröfunum, ræðum kosti og galla, heiðarlega, tökum afstöðu og út af borðinu með ÞRASIÐ.
Kvótakerfið, klofin þjóð! Upp úr skotgröfunum og lögum ástandið með öllum tiltækum ráðum. Þjóðin á fiskinn í SJÓNUM.
Barnavernd. Ég styð heilshugar nýjar áherslur sem barnamálaráðherra hefur verið í farabroddi með undanfarið, það starf verður honum ætíð til sóma. „Það minnsta sem þú getur gert er að koma vel fram við börn“ (Vigdís Grímsdóttir). Við erum því miður allt of mörg sem þekkjum annað.

Ég er í sambúð með Elfu Hlín Sigrúnar Pétursdóttur og eigum við fimm ára gamla dóttur. Ég hef verið búsettur á Seyðisfirði síðustu 6 ár en ræturnar vestur eru mjög sterkar og fyrirferðarmiklar í mínu lífi. Ég sakna birtunnar, þrái frelsið og víðsýnið. Ég á hús í Stykkishólmi og gæti hæglega tekið mig upp með konu og barnið. Mig langar oft heim.

Pólitík er stundum leiðinlegt argaþras sem er mikilvægt að breyta þannig að hún fæli ekki frá hinn almenna kjósanda. Okkur vantar alls konar fólk með nýjar áherslur og við þurfum skapa rými fyrir það. Ég þakka stuðninginn, vil vera ferskur og öðruvísi þingmaður. ÞAÐ MÁ.

Ég er á Facebook, síminn minn er 893-0000 og netfangið tryggvi@flatey.is, endilega hafið samband og kynnumst betur.
Kveðja góð
Tryggvi Gunnarsson Flateying í 3ja sætið.

bottom of page