top of page
Stefán Vagn Stefánsson.jpg

Stefán Vagn Stefánsson

Framboð: 1. sæti

Fæðingarár: 1972

Búseta: Sauðárkrókur

Ég heiti Stefán Vagn Stefánsson og gef kost á mér í fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar 2021.


Ég er sonur Stefáns Guðmundssonar og Hrafnhildar Stefánsdóttur frá Sauðárkróki og er giftur Hrafnhildi Guðjónsdóttur félagsráðgjafa. Við eigum þrjú börn, þau Söru Líf, Atla Dag og Sigríði Hrafnhildi. Ég er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki og bjó þar til 25 ára aldurs þar til ég hélt til höfuðborgarinnar til frekara náms og starfa.


Í dag starfa ég sem yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra og hef unnið þar síðan árið 2008. Fyrir þann tíma vann ég í lögreglunni í Reykjavík frá 1997, en frá árinu 2000 var ég í sérsveit Ríkislögreglustjóra og frá 2007 til 2008 hjá greiningardeild Ríkislögreglustjóra. Árið 2006 fór ég til Afganistan á vegum utanríkisráðuneytisins sem friðargæsluliði og var þar til ársins 2007. Á þessum 23 árum í lögreglunni hef ég tekist á við mjög erfið og krefjandi verkefni. Ég mun alla tíð búa að þeirri reynslu sem þau hafa fært mér og hún hefur nýst mér í fjölmörgum verkefnum sem ég hef tekist á við á öðrum vettvangi, þ.á m. stjórnmálum.


Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á stjórnmálum og hef sterkar skoðanir sem ég er ekki hræddur við að láta í ljós. Árið 2010 gafst mér tækifæri til að taka sæti á lista Framsóknarflokksins í Skagafirði fyrir sveitarstjórnarkosningar og ég hef verið oddviti flokksins síðan þá, eða í um 11 ár. Allt það tímabil höfum við Framsóknarmenn verið í meirihluta. Ég hef starfað sem formaður byggðarráðs sveitarfélagsins frá 2010 til 2020 og gegni nú stöðu forseta sveitarstjórnar. Ég hef starfað í stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra á þessu tímabili og verið formaður þeirra samtaka í tvö ár. Í síðustu alþingiskosningum var í 3. sæti á lista Framsóknar og hef verið varaþingmaður þetta kjörtímabil.


Ég hef mikinn metnað til að vinna að þeim fjölmörgu verkefnum sem okkar bíða í Norðvesturkjördæmi en verkefnalistinn er langur og verkefnin fjölbreytt enda aðstæður og áherslur ólíkar á milli svæða. Reynsla mín úr sveitarstjórnarmálum mun án efa nýtast vel í verkefnum á Alþingi Íslendinga, fái ég stuðning til þess að sinna þeim. Ekki síður skiptir máli sú innsýn sem ég hef fengið í hlutverk þeirrar mikilvægu stoðar sem löggæsla og almannavarnir eru í samfélaginu. Ég tel mig hafa sýnt það á ellefu árum í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar að í mér býr kraftur og áræðni til að koma verkum áfram og mun ég halda því áfram fyrir íbúa Norðvesturkjördæmis.

bottom of page