top of page

Reglur um póstkosningu

I. kafli.

Valdagur.

1. gr. Kjördæmisþing ákveður hvenær póstkosning hefst, valdagur, þ.e. þann dag er atkvæðaseðlar eru sendir út til félagsmanna.


II. kafli.

Kosningarréttur og kjörgengi.

2. gr. Rétt til atkvæðagreiðslu í póstkosningunni eiga flokksbundnir framsóknarmenn sem eiga lögheimili í kjördæminu, þ.m.t. þeir sem skilað hafa inn inngöngubeiðnum í Framsóknarflokkinn 30 dögum fyrir valdag póstkosningarinnar.

3. gr. Heimilt er að innheimta þátttökugjald.

4. gr. Frambjóðendur í póstkosningunni geta þeir einir orðið sem eru félagar í Framsóknarflokknum og hafa kjörgengi til Alþingis, þ.m.t. þeir sem skilað hafa inn inngöngubeiðnum í Framsóknarflokkinn 30 dögum fyrir valdag póstkosningarinnar og hafa náð 18 ára aldri á kjördag til Alþingis, samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár.


III. kafli.

Kjörskrá.

5. gr. Skrifstofa Framsóknarflokksins gerir kjörskrá þar sem fram kemur nafn, kennitala, lögheimili og sveitarfélag.

6. gr. Skrifstofa Framsóknarflokksins gerir skrá vegna póstkosningarinnar, með símanúmerum og mun afhenda frambjóðendum, sem þess óska, eitt eintak af henni í excel-formi. Afhending er gegn greiðslu á kostnaði við gerð skrár á hvern frambjóðanda. Pantanir sendist á netfangið: framsokn@framsokn.is.

7. gr. Frambjóðanda er heimilt að senda framboðskynningu á sér á netfangaskrá Framsóknarflokksins í kjördæminu í eitt skipti. SMS-sendingar eru heimilar í eitt skipti svo og afhending á límmiðasetti til útsendingar í eitt skipti.

8. gr. Skrifstofa Framsóknarflokksins sér um útsendingu á netföng, á SMS-sendingum og afhendingu límmiðasetts gegn greiðslu á kostnaði.

9. gr. Fylgt skal ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga


IV. kafli.

Kjörstjórn.

10. gr. Kjördæmisþing kýs 7 manna kjörstjórn til eins árs í senn. Kjósa skal formann sérstaklega á kjördæmisþingi. Kjörstjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti. Stjórn kjördæmissambands setur kjörstjórn erindisbréf.

11. gr. Kjörstjórn skal undirbúa og annast framkvæmd póstkosningarinnar. Kjörstjórn skal halda gerðabók og bóka viðtöku framboða, afgreiðslu þeirra, útsendingu og viðtöku kjörseðla og bréfa, hvers konar úrskurði, talningu atkvæða, úrslit kosninga og annað þess háttar er máli skiptir við framkvæmd póstkosningarinnar.


V. kafli.

Framboð, framboðsfrestur, umboðsmenn og auglýsing.

12. gr. Kjörstjórn skal auglýsa eftir frambjóðendum til þátttöku í póstkosningunni.

13. gr. Framboðsfrestur skal vera minnst 7 sólarhringar.

14. gr. Framboðstilkynningu skal skilað til kjörstjórnar eigi síðar en kl. 12 á hádegi 15 dögum fyrir valdag. Í framboðstilkynningu skulu frambjóðendur gefa kost á sér í ákveðin sæti, eitt eða fleiri, þegar þeir tilkynna um framboð sitt. Með framboðstilkynningu skal hver frambjóðandi skila að hámarki 400 orða texta á rafrænu formi þar sem frambjóðandi kynnir sjálfan sig og greinir frá helstu baráttumálum sínum, ásamt einni mynd af frambjóðanda á rafrænu formi sem er að lágmarki 1 MB (megabyte) að stærð. Með framboðstilkynningu skal fylgja meðmælendalisti með að lágmarki 10 og að hámarki með 20 flokksbundnum framsóknarmönnum. Meðmælandi má einungis mæla með einum frambjóðanda og skal hann hafa kosningarrétt í póstkosningunni. Mæli flokksmaður með fleiri en einu framboði, verður hann þá ekki talinn meðmælandi neins þeirra.

15. gr. Kjörstjórn vinnur úr þessum upplýsingum og verða þær birtar í kynningarriti um frambjóðendur fyrir póstkosninguna.

16. gr. Frambjóðandi greiðir hluta kostnaðar við gerð kynningarefnis kjörstjórnar.

17. gr. Kjörstjórn skipuleggur kynningarfundi með frambjóðendum fyrir póstkosninguna.

18. gr. Hverjum frambjóðenda er heimilt að skipa sér umboðsmann til þess að gæta réttar og hagsmuna framboðsins.

19. gr. Framboð er ekki endanlega staðfest fyrr en kjörstjórn hefur staðfest kjörgengi frambjóðanda, meðmælendalista og fyrir liggi staðfesting á skilum til Ríkisendurskoðunar í þeim tilfellum sem það á við. Kjörstjórn hefur heimild til að hafna frambjóðanda ef gildar ástæður eru fyrir og skulu þær rökstuddar skriflega. Kjörstjórn er jafnframt heimilt ef ástæða þykir til að bæta við frambjóðendum að fengnu samþykki þeirra.

20. gr. Frambjóðendur skulu reka áróður fyrir framboði sínu í eigin nafni, en ekki í nafni Framsóknarflokksins.

21. gr. Frambjóðendur bera einir ábyrgð á sinni kosningabaráttu. Þeim ber að gæta þess að þeir sjálfir, eða þeir sem starfa í þeirra umboði, gæti þess að hlíta í hvívetna landslögum sem og lögum og siðareglum Framsóknarflokksins.

22. gr. Frambjóðendur skulu undirrita yfirlýsingu þess efnis að þeir hafi kynnt sér þessar reglur og muni fara eftir þeim.

23. gr. Kjörstjórn skal birta tilkynningu um póstkosningu með viðeigandi hætti. Tilkynningu þessa skal birta með hæfilegum fyrirvara fyrir valdag.


VI. kafli.

Kjörgögn.

24. gr. Kjörstjórn skal láta prenta kjörseðla úr haldgóðum ógegnsæjum pappír.

25. gr. Á kjörseðlinum verða nöfn frambjóðenda ásamt stöðu eða starfsheiti og heimili ef nauðsyn þykir til auðkenningar. Dregið skal um röðun frambjóðenda á kjörseðlinum.


VII. kafli.

Atkvæðagreiðsla á valdögum.

26. gr. Kjörstjórn sendir atkvæðaseðil til þeirra sem á kjörskrá eru á valdag.

27. gr. Kjósendur skulu velja 5; 6; 7 frambjóðendur, hvorki fleiri né færri, og merkja með tölustöfum við nöfn þeirra og í þeirri röð sem þeir vilja að frambjóðendur taki sæti á 3 Framboðsreglur Framsóknar fyrir alþingiskosningar framboðslista Framsóknarflokksins í kjördæminu. Það er 1 við þann sem kjósandi vill að skipi efsta sæti, 2 við þann sem kjósandi vill í annað sæti, 3 við þann sem skipa skal þriðja sætið, o.s.frv.

28. gr. Þegar kjósandi hefur útfyllt seðilinn skal hann ganga frá seðlinum í kjörseðilsumslag sem merkt er ATKVÆÐASEÐILL og loka því. Það umslag skal síðan sett í annað umslag sem merkt er með nafni þess sem greitt hefur atkvæði og skal kjósandi skrifa nafn sitt aftan á umslagið þvert yfir líminguna. Að lokum er umslagið sett í þriðja umslagið sem merkt er kjörstjórninni og sent til hennar eða skrifstofu Framsóknarflokksins. Atkvæði skal fara í gegnum pósthús – sé með póststimpil.

29. gr. Kjósandi skal undirrita yfirlýsingu sem fylgir með atkvæðisseðli um að hann hafi persónulega tekið þátt í póstkosningunni en ekki aðrir í hans stað. Atkvæðaseðill telst því aðeins gildur ef slík yfirlýsing fylgir með.

30. gr. Atkvæðið verður að póstleggja í síðasta lagi á síðasta valdegi.


VIII. kafli.

Atkvæðatalning og kosningaúrslit.

31. gr. Kjörstjórn annast talningu atkvæða á fyrirfram ákveðnum stað og stund.

32. gr. Umboðsmönnum frambjóðenda er heimilt að vera viðstaddir talninguna.

33. gr. Við talningu atkvæða hlýtur sá fyrsta sæti sem fær flest atkvæði í fyrsta sætið. Sá hlýtur annað sætið sem hefur flest atkvæði í 1. og 2. sætið og sá þriðja sætið sem hlýtur flest atkvæði í 1., 2. og 3. sæti. Síðan hljóta frambjóðendur önnur sæti í póstkosningunni með sama hætti. Hafi tveir eða fleiri hlotið jafnmörg atkvæði og geta ekki báðir eða allir náð kjöri ræður hlutkesti.

34. gr. Taki frambjóðandi ekki það sæti er hann hlýtur í kosningunni mun sá sem á eftir kemur færast upp um sæti. Ef frambjóðandi í 1. sæti hafnar því þá ber að færa þann sem hlaut 2. sæti upp í 1. sæti, þann sem hlaut 3. sæti í 2. sæti o.s.frv.

35. gr. Vinnu starfsmanna í talningu er lokið þegar kjörstjórn hefur staðfest úrslit og uppgjör.

36. gr. Sá sem er viðstaddur talningu getur ekki yfirgefið hana fyrr en talningu er lokið og úrslit tilkynnt.

37. gr. Í 5; 6; 7 efstu sætum framboðslistans skal hlutur hvors kyns ekki vera lægri en 40%, þó skulu ekki vera fleiri en 3 af sama kyni í fyrstu 4 sætunum.

38. gr. Frambjóðandi undirritar yfirlýsingu, fyrir atkvæðatalningu, um hvaða sæti hann taki hljóti hann ekki kosningu í það sæti sem hann sækist eftir.

39. gr. Frambjóðandi skal hafa svarað kjörstjórn innan 48 klst. frá því að úrslit eru kynnt, hvort hann tekur sæti á framboðslistanum.


IX. kafli.

Kosningum frestað.

40. gr. Kjörstjórn er heimilt að fresta póstkosningunni ef veður eða náttúruhamfarir hamla.


X. kafli.

Kosningakærur.

41. gr. Frestur frambjóðenda til að gera athugasemdir eða krefjast endurtalningar atkvæða rennur út þremur sólarhringum eftir tilkynningu úrslita. 4 Framboðsreglur Framsóknar fyrir alþingiskosningar

42. gr. Komi fram ágreiningur um framkvæmd eða tilhögun póstkosningarinnar skal gera það skriflega til kjörstjórnar. Úrskurði kjörstjórnar má skjóta til laganefndar Framsóknarflokksins og fara þau eins og lög Framsóknarflokksins kveða á um.


XI. kafli.

Eyðing kjörgagna.

43. gr. Eyða skal öllum kjörgögnum þegar niðurstöður liggja fyrir, kærufrestur hefur runnið út og auka kjördæmisþingi er lokið.


XII. kafli.

Kostnaður.

44. gr. Hámarks útlagður kostnaður hvers frambjóðanda vegna póstkosningarinnar má ekki fara umfram kostnaðartölu sem landsstjórn Framsóknarflokksins telur hæfilega, s.s. vegna auglýsinga frambjóðenda í ljósvakamiðlum, prentmiðlum og vefmiðlum. Frambjóðendum ber að skila til skrifstofu Framsóknarflokksins fjárhagslegu uppgjöri innan 30 daga að lokinni póstkosningu. Skrifstofa Framsóknarflokksins skal skila uppgjörinu inn til Ríkisendurskoðunar.

45. gr. Í einu og öllu skal farið eftir lögum um fjármál stjórnmálaflokka nr. 162/2006.


XIII. kafli.

Framboðslistinn.

46. gr. Kjörstjórn gerir tillögu um skipan framboðslistans í heild að öðru leyti til stjórnar kjördæmissambandsins sem leggur hann fyrir auka kjördæmisþing.

bottom of page