top of page
mynd.jpg

Gunnar Tryggvi Halldórsson

Framboð: 3. sæti

Fæðingarár: 1979

Búseta: Blönduós

Ég er fæddur og uppalinn í Austur- Húnavatnssýslu þar sem foreldrar mínir stunduðu sauðfjárbúskap í Finnstungu, Blöndudal. Foreldrar mínir eru Halldór B. Maríasson fæddur og uppalin á Ísafirði og Áslaug F. Guðmundsdóttir fædd og uppalin í Finnstungu. Mínar ættir koma því báðar úr okkar kjördæmi og bara ansi góð blanda sjómanna og bænda, þó ég segi sjálfur frá . Í dag er ég búsettur ásamt fjölskyldu minni á Blönduósi þar sem við byggðum okkur hús árið 2008. Konan mín er Þórdís Hauksdóttir fræðslustjóri Austur-Húnavatnssýslu og saman eigum við fjögur börn á grunn- og framhaldsskólaaldri. 


Ég er sagnfræðingur með framhaldsmenntun í uppeldis- og menntunarfræðum auk kennsluréttinda. í dag starfa ég sem gæða- og markaðsstjóri hjá Vilko ehf. auk þess að vera sveitarstjórnarfulltrúi á Blönduósi. Fyrri störf eru m.a. kennsla við Húnavallaskóla og framkvæmdastjóri í sláturhúsi SAH afurða á Blönduósi. Í gegnum menntun mína og störf tel ég mig hafa góða yfirsýn í málefnum landsbyggðar, atvinnulífs, menntunar ofl.


Stefnumál mín eru helst atvinnumál í okkar kjördæmi sem ég tel vera undirstöðu allra annarra mikilvægra þátta. Aðrir þættir samfélags fylgja á eftir ef hjólum atvinnulífs er haldið gangandi. Margar atvinnugreinar eiga undir högg að sækja í kjördæminu eins og sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður. Þar er mikilvægt að styrkja grunnstoðir atvinnulífs á sama tíma og leitað er nýrra tækifæra. Ferðaþjónusta hefur verið vaxandi atvinnugrein seinustu ár en hún kemur ekki í staðinn fyrir aðra atvinnuvegi. Ferðaþjónusta á frekar að vera mikilvæg viðbót við þær grunnstoðir sem fyrir eru. Seinasta ár hefur verið lærdómsríkt á sviði ferðaþjónustu og áminning um að eggin geta ekki verið öll í sömu körfu þegar er á brattann að sækja. Þess vegna tel ég fjölbreytileika atvinnulífs mikilvægan þátt til hagsældar og framfara í dreifðari byggðum landsins.


Norðvesturkjördæmi er stórt landsvæði með ólíkar áskoranir. Hvað varðar menntamál er aðgengi menntunar mjög mismunandi. Þeir sem ekki eru með aðgengi að framhalds- og háskóla í nærumhverfi þurfa því að leggja í mikinn kostnað við skólagöngu barna sinna. Þetta á ekki bara við um skólagöngu í framhaldsskóla heldur geta klafar námslána verið eina leið ungs fólk til að sækja sér menntunar frá dreifðari byggðum. Það er ekki gott veganesti fyrir unga fólkið okkar að fara stórskuldugt út í lífið.  Auka þarf tækifæri til náms í kjördæminu öllu. Aðgengi að menntun þarf því að stórauka í okkar kjördæmi og ekki síst leggja ríkari áherslu á iðnnám.

bottom of page