Friðrik Már Sigurðsson
Framboð: 3.-4. sæti
Fæðingarár: 1980
Búseta: Lækjamóti í Húnaþingi Vestra
Öflugt samfélag, sterkt atvinnulíf og traust búseta í þéttbýli og dreifbýli er ekkert náttúrulögmál. Við þurfum að vinna af krafti, skapa hagstæðar aðstæður og fjárfesta í samfélaginu. Meginástæða þess að ég býð mig fram er löngunin til þess að bæta lífsgæði og treysta lífsviðurværi fólks. Leggja mitt á vogarskálarnar til þess að veita öllum jöfn tækifæri til þess að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Ég vil taka þátt í að skapa félagslega sterkt og réttlátt samfélag sem heldur utanum þá sem þess þurfa. Ég vil vinna að því að skapa fjölbreytt atvinnutækifæri með eflingu nýsköpunar og skapandi greina. Ég vil að lagaumhverfi styðji enn frekar við frumframleiðslu og nýjar leiðir í verðmætasköpun, þannig að frumkvöðlar treysti sér til að grípa þau tækifæri sem eru til staðar. Ég sé ótal tækifæri til sjávar og sveita. Ég vil að eignarhaldi á bújörð fylgi ákveðnar skyldur, þannig að landgæði á hverjum stað stuðli að aukinni atvinnusköpun, matvælaframleiðslu og eflingu byggðar í landinu.
Ég bý á Lækjamóti í Húnaþingi vestra, ásamt eiginkonu minni og tveimur börnum. Ég er bóndi og hestamaður af lífi og sál. Áhugamál mín eru hestamennska, búfjárrækt, söngur, göngur og réttir, útivist og félagsstörf. Ég er menntaður tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum, hef lokið BS námi í búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og stunda nú meistaranám í verkefnastjórnun (MPM-nám) við Háskólann í Reykjavík.
Ég hef verið sveitarstjórnarfulltrúi í Húnaþingi vestra frá árinu 2018, þar sem ég er hluti af hreinum meirihluta B-lista Framsóknar. Ég sit í byggðarráði og gegndi þar formennsku frá 2019-2020. Þá hef ég setið í félagsþjónustunefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2018.
Árið 2019 var ég skipaður, af félags- og barnamálaráðherra, formaður nefndar um heildarendurskoðun laga um fæðingar- og foreldraorlof, sem afgreidd voru sem lög frá Alþingi nú fyrir jól. Sú vinna var gefandi og afar lærdómsrík. Ég hef verið formaður kjördæmissambands Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi síðastliðin tvö ár, en hef stigið tímabundið til hliðar úr stjórn þess á meðan á póstkosningunni stendur. Þá hef ég setið í Landsstjórn Framsóknarflokksins frá 2019.
Ég vil fá tækifæri til þess að gera gott samfélag enn betra með réttsýni, framsækni og vinnusemi að leiðarljósi. Þess vegna gef kost á mér í 3.-4. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar 2021. Ég er athafnasamur og víðsýnn einstaklingur og horfi af bjartsýni fram á veginn, reiðubúinn til þess að takast á við þær áskoranir sem framundan eru.
Ekki hika við að hafa samband við mig ef þig langar að kynnast mér og mínum áherslum betur. Ég er alltaf tilbúinn að taka spjallið. Einnig er hægt að kynnast mér og mínum áherslumálum nánar á samfélagsmiðlum. Takk fyrir að gefa þér tíma!
Með framsóknarkveðju,
Friðrik
Sími: 8997222
Netfang: fridrikms@gmail.com
Facebook: https://www.facebook.com/fridrik.mar.sigurdsson
Instagram: @fridrikms